Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Geng ég út fyrir dyr

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Geng ég út fyrir dyr“

Það er almenn sögn að gamlir menn (það er að segja menn á fyrri öldum) hafi kunnað miklungi meira utanbókar heldur en menn kunna nú síðan bóklestur fór að verða algengur. En til að sýna að slíkt hafi þó ekki algengt verið undantekningarlaust þá set eg til eftirsjónar tvær smásögur:[1]

Karl einn var sá í Skaftártungu austur er ekkert kunni nema faðirvor. Sálusorgara hans þókti það of lítið og áminnti hann um að læra nokkuð sér til sálargagns þangað til fundum þeirra bæri næst saman. Þar við var staddur Einar Gíslason, bróðir Guðrúnar Gísladóttir sem oft hefir nefnd verið, unglingur að aldri, en ærið kætisamur. Bauð hann karli að kenna honum hverju tilboði karlfuglinn tók með þökkum. Kenndi hann honum þá eftirfylgjandi:

Geng ég út fyrir dyr,
geng ég inn fyrir dyr.
Fylgja mér jafnan fantar margir,
fjandans púkar næsta kargir.
Komi einn tveir þrír
fjórir Guðs englar.
Komdu sæl Máría mín;
horfi ég augum upp til þín.
Bæn ber ég fyrir mig,
bók fyrir sjálfan mig.
Komdu Pétur og Páll,
postular Guðs míns góða.
Syng ég sjö sálma
sinn í átt hverja.
Les ég Pater nostir,
líka bænir margar.
Ljósið það hið langa
lýsi mér í Paradís að ganga
svo ég hrapi ekki á hellunni
því þar er stór langa,
hin svikula slanga.
Kross í kross
sem datt ofan fyrir foss
sé með öllum oss.
Svíktu ekki oss
sem rak upp á eyrina.
Gef það öllum oss. Ámen.

Næst er prestur kom byrjaði karl þuluvers þetta með ánægju. En er því var lokið spyr prestur hann að hver honum hafi kennt. „Hann Einar,“ segir karlinn. Og setti prestur ofan í við strákinn fyrir narrið.

  1. Síðari sagan er Ljósið sem hvarf.