Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Gjörum þá graut úr öllu saman
Útlit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Gjörum þá graut úr öllu saman“
„Gjörum þá graut úr öllu saman“
Einu sinni bjó prestur nokkur með bústýru. Hann var í öllum ráðum með henni í matarstörfum og tilhögun á mat. Einn sunnudag messaði hann sem oftar. Bústýran spurði hann að áður en hann gekk í kirkju hvað hún ætti að gera við flóningarmjólkina ef hún ysti. Prestur svaraði ef svo illa færi skyldi hún koma út að kirkjudyrum og skyldi hann þá gefa henni vísbending. En svo fór að gellir varð úr mjólkinni. Hún gekk í kirkjudyrnar og prestur sér hana. Þá segir hann upp úr ræðunni: „Gjörum þá graut úr öllu saman, börn Guðs elskuleg.“ Bústýra lét sér þetta að kenningu verða og gerði graut úr öllu saman.