Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Hét Brúnn var Ólafur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
„Hét Brúnn, var Ólafur“

Maður hét Eiríkur Þórláksson; hann bjó í Köldukinn í Þingeyjarsýslu. Nágranna átti hann þar sem Rafn hét og bjó þar sem heitir á Felli. Eitt sinn keypti Rafn hest brúnan að lit að manni sunnlenzkum sem Ólafur hét. Hesturinn var illa til fara og kjaftsár, nýkominn úr ferð úr Höfðahverfi. Eiríkur var viðstaddur kaupin og latti mjög Rafn að kaupa hestinn, en Rafn keypti ei að síður. Skömmu síðar fannst hesturinn dauður í læk skammt frá bæ Rafns, og sem Eiríkur sagði þá frétt öðrum nágrönnum sínum mælti hann: „Hefði Rafn á Felli farið að ráðum mínum hefði ekki farið fyrir honum sem fór, gekk þar suður í lækinn og drap sig, hét Brúnn, var Ólafur, ættaður sunnan af landi, horaður, kjaftsár, teymdur neðan úr Höfðahverfi með ólarspotta í kjaftinum.“