Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Hafðu þá þetta höfuðpaurinn

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
„Hafðu þá þetta höfuðpaurinn“

Kerling nokkur er fór á milli manna kom einu sinni á sýslumannssetur eitt og beiddist gistingar og var henni sögð hún heimil; dróst svo til að hún varð þar nokkurn tíma. Eitt kveld þá allir voru komnir í baðstofu var farið að tala um afturgöngur og drauga og hlustaði kerling á það þegjandi þar til hún segir: „Mikið er hvernin unga fólkið er orðið, það hræðist allt; öðru vísi var ég á þess aldri“ – og annað þvíumlíkt rausaði hún. Sýslumaðurinn hlustaði á tal hennar og hafði gaman af. Síðan segir hann við ráðsmann sinn að hann skuli loka sig úti um það leyti sem kerling sé vön að hella úr kopp sínum, og gjörir hann það. Síðan kemur kerling með koppinn í hendinni og lýkur upp bænum og verður vör við eitthvað úti, því sýslumaður gekk um gólf og lét snörla í sér; heyrir hann þá að kelling raular fyrir munni sér:

Óhrædd nú geng ég illum mót
árum og draugaher
meðan hjálpræðis hjálm og spjót
í höndum mínum ég ber.

Því næst skvettir hún úr koppnum og segir: „Hafðu þá þetta, höfuðpaurinn,“ og fór eftir það burt. En sýslumaður henti gaman að djarfleik kerlingarinnar.