Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Hafi þær það þá báðar

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
„Hafi þær það þá báðar“

Einu sinni var prestur á Stóruvöllum á Landi. Hann átti að leiða tvær konur í kirkju einn sunnudag, sína frá hvorum bæ, Vatnagarði og Stampi; þeir bæir eru skammt hvor frá öðrum og hinn síðarnefndi hjáleiga frá Galtalæk. Presturinn var vanur að prédika blaðalaust og lagði allt á minnið. Þegar ræðunni var lokið og hann ætlar að fara að leiða konurnar í kirkju gleymir hann því fyrst að þær voru tvær og þar næst ruglast hann í fyrrnefndum bæjanöfnum, en byrjar þó og segir: „Konan frá Vatna-Galta-Stampi, hún N. N. mín sem við allir þekkjum er í dag inngengin“ o. s. frv., og heldur svo áfram með kirkjuinnleiðsluna. Þegar meðhjálparinn heyrir að presturinn muni ekki ætla að minnast hinnar konunnar gengur hann fram að prédikunarstólnum og kallar upp: „Konurnar voru tvær.“ Þá gegnir prestur og segir: „Nú, hafi þær það þá báðar.“