Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Hann Hausti blessaður

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Einu sinni bjó kerling í koti nokkuru; hún var vel fjáreigandi og átti sér eina dóttur barna; sú þótti mjög heimsk. Kerling hafði málnytu allmikla á sumrum og bjó hún til osta úr mjólkinni og geymdi þá. Einu sinni spyr stelpa móður sína hvað lengi hún ætli að geyma alla þessa osta. „Til haustsins,“ segir kerling.

Nú bar svo við þessu næst, að kerling fór eitthvað að heiman; en stelpan var ein eftir í kotinu að gæta búsins. Þá kemur þar maður ókenndur og heilsar henni; hún tekur því og spyr hann að nafni. Hann kvaðst heita Hausti. Stelpa mælti: „Á, á! Þar kom hann Hausti þá loksins! Komdu blessaður og sæll Hausti minn góður. Hún móðir mín hefir safnað saman miklu af ostum og geymt þá handa þér, og skal ég nú fá þér þá alla.“ Því næst ryður hún í hann ostunum, og tekur hann við þeim glaðlega. Eftir það snýr hann sér undan og kastar af sér vatni. Stelpa sér þetta og setur hönd fyrir auga; spyr hún nú manninn hvað þetta þing hans heiti. Hann segir að það heiti vit. „Blessaður Hausti minn,“ segir hún, „gefðu mér dálítið af vitinu þínu, því hún móðir mín brigzlar mér svo oft um flónskuna.“ Maðurinn varð skjótt við bæn hennar og dreypti á hana neðan til af viti sínu og fór á burt eftir það með alla ostana, en stelpan var eftir.

Nú kemur kerling heim og fagnar stelpa móður sinni; segir hún henni brátt þarkomu Hausta og að hún hafi fengið honum alla ostana. „Bölvuð fari úr þér vitleysan,“ segir kerling. Stelpa mælti: „Þú þarft nú ekki að brigzla mér um vitleysuna lengur því hann Hausti minn setti í mig nóg vit,“ og um leið flettir hún upp um sig pilsinu og sýnir móður sinni hvar Hausti hafi skilið eftir vitið. Við þetta allt saman varð kerling svo reið að hún lúbarði dóttur sína og rak hana síðan í bruttu; bað hún hana aldrei framar koma sér fyrir augu.