Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Hann bjó
„Hann bjó“
Einu sinni var maður nokkur er grobbaði fram úr hófi af því hver búmaður hann væri. Oflátungur þessi hafði átt konu og búið saman við hana eitt ár með illan leik, hafði flosnað upp vorið eftir og var nýskilinn við konuna er hann kom til bónda eins þar í nágrenninu. Þegar hann reið í hlaðið var bóndi staddur úti og hjá honum þrír hundar mjög misjafnir að stærð og aldri. Hundarnir stukku allir upp með gelti miklu er maðurinn kom í hlaðið. En bóndi sveiaði þeim og atyrti, en tók blíðlega á móti gesti sínum er bar sig vel og var mikill á lofti eins og hann átti að sér. Þegar gesturinn er kominn af baki spyr bóndi hann hvort hann hafi tekið eftir því sem hundaskammirnar hefðu sagt um hann. Hinn kvað nei við, því hann hefði verið að hugsa um hvað mikinn pening hann gæti haft á annari eins jörð og bóndi hefði. En bóndi segir honum þá að stóri hundurinn hefði sagt með digra rómnum:
- „Hann bjó,
- hann bjó.“
Þá hefði miðlungshundurinn sagt með nokkuð mjórri róm:
- „Eitt ár,
- eitt ár.“
En svo hefði minnsti hundurinn bætt því við með hvella geltinu sem út yfir hefði tekið, og sagt:
- „Með skömm,
- með skömm.“
Kvaðst þá bóndi ekki hafa getað stillt sig lengur og sneypt hundana fyrir svo ósæmilega frekju og slettirekuskap í því sem þeim kæmi ekkert við. Oflátungurinn beið ekki þess að bóndi byði honum inn og reið svo búinn burtu aftur og er þess ekki getið að þar hafi orðið mikið um kveðjur.