Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Hefði það verið sem aldrei varð

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1864)
„Hefði það verið sem aldrei var“

Til eru margar kerlingasögur, eður karlasögur sem kvenfólkið kallar það, til varúðar þeim sem deila út úr engu efni, og sagt að þeir sé eins og kerlingarnar.

Sú er ein saga að einu sinni voru tvær kerlingar á bæ, og bar svo til að önnur kerlingin tók ullarlagð og fleygði óvart í hina. Þá varð hin kerlingin æf og sagði: „Og svei þér, hefði það verið steinn, þá hefði það drepið mig.“ „Og hefði það verið, hefði sem aldrei var,“ sagði hin. „Það er ekki þér að þakka,“ sagði hin; „hefði það verið steinn, þá hefði það drepið mig.“ Þangað til vóru kerlingarnar að rífast um það, að hefði það verið steinn þá hefði það drepið hana, þangað til þær flugust á. Því segja menn við þá sem gjöra getsakir og gera ráð fyrir því sem aldrei var, en ekki því sem er: „Hefði það verið sem aldrei var, sagði kerlingin,“ segja menn.