Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Himnaríki á uppboðsþingi
Himnaríki á uppboðsþingi
Þegar Ólafur biskup Gíslason[1] var í Skálholti bjó þar í grennd bóndi sá er Guðmundur hét; hann var auðmaður og hafði grætt peninga mikla. Einhverjir urðu til að bera Guðmundi þá frétt að páfinn hefði ritað biskupi bréf og skipað honum að selja himnaríki á uppboðsþingi fyrir peninga, og ráða þeir Guðmundi til að ná í kaupið. Þykir honum það fýsilegt og fer að finna biskup og ræða við hann um söluna. Biskup aumkar einfeldni Guðmundar og vill leiðrétta hann og segir: „Hvorki páfinn eða ég eða nokkur maður á ráð á að selja eður kaupa himnaríki við verði; allir eru syndarar og eiga það einungis undir náð guðs að hann gefi þeim himnaríki.“ „Gefi,“ segir Guðmundur, „ég er ekki upp á það kominn að guð gefi mér himnaríki, ég á nóg til að borga það með.“
- ↑ Ólafur Gíslason (f. 1691) var biskup í Skálholti 1747-1753.