Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Hjónin í Múlasýslu

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Hjónin í Múlasýslu

Fyrir stuttu vóru rík hjón austur í Múlasýslu. Þau spöruðu allt sem þau gátu og gengu illa til fara. Einu sinni komu þau í kaupstað. Kallinn tók út hátt í sjóvettling af peningum. Þá segir kelling: „Hvernig eigum við að fara með börnin heima?“ „Ég veit það ekki,“ segir hann; „ég hef engin ráð til þess. Ég veit ekki hvort ég á þrjá eða fjóra skildinga í þumlinum á vettlingnum. Sé það máttu fá þá og kaupa fyrir þá svartabrauð og má ég þó ekki missa þá.“ Þó varð þetta; kelling keypti fyrir þá.

Einu sinni kom hann eitt haust með skurðarfé (um eitt hundrað) á Akureyri og tók til að slátra; þá kemur til hans fátæk kona úr bænum og biður hann að gera sér eitthvað gott. Hann kvaðst hafa lítið til, en hugsar sig um, tekur svo einn fót og fær henni (sumir segja lambsfót). Nú fer hann að selja slátrið og þá þótti honum vanta einn fótinn og mundi það ringa verðið. Hann leitar því upp konuna aftur og segist ekki mega missa fótinn og þurfi því að fá hann aftur, svo konan lætur hann af hendi aftur því hún kvað sér stæði á sama hvað um hann yrði, því hver væri sínum gjöfum líkur.