Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Hornfirðingar

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hornfirðingar

Austanlands ganga margar sögur af Hornfirðingum og leggja Austfirðingar þeim á bak öll heimskupör og álfaskap. Séra Stefán Ólafsson kvað háð um þá sem kunnigt er, Hornfirðingabrag; Brúðkaupsreið þeirra og Hornafjarðar messugjörð. Er þá í mæli að Hornfirðingar hafi reiðzt kveðskap hans og gjört honum sjúkdóm þann, sem var geðveiki, sem þjáði hann á efri árum sínum.

Ein saga af Hornfirðingum er þessi:

Einu sinni komu Hornfirðingar í kaupstað, sem ekki var vant, og þótti þar flest dýrðlegt umhorfs og ólíkt því sem þeir voru vanir í Hornafirðinum. Meðal annars varð þeim litið upp í tunglið sem skein í heiði. „Tarna er almennilegt tungl,“ sögðu þeir, „það er munur eða helvízkur Hornafjarðarmáninn.“