Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Hreppstjórinn sem kastaði rekunum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hreppstjórinn sem kastaði rekunum

Einu sinni var prestslaust í Aðalvík og ekki hægt prest að fá, en þegar svo stóð á urðu bændur sjálfir að grafa lík sín. Eitt sinn grófu þeir einn dauðan; vildi hreppstjóri vera þar sem prestsgildi, en meðhjálpari var þó betur til fær. Allt var látið fara fram, hringing og söngur sem við átti, og stóð meðhjálpari fyrir því, en þá búið var að láta líkið í gröfina þrífur hreppstjóri spaðann til að kasta moldum á eins og prestar gjöra og spyr um leið meðhjálparann: „Hvað á ég nú að segja?“ „Af jörð ertu kominn,“ segir hann. Hinn kastar af spaðanum og hefur þetta skýrt eftir, tekur upp á spaðanum öðru sinni og spyr: „En hvað á ég nú að segja?“ Meðhjálpari segir honum það og hefur hann það eftir. Við þriðju rekuna spyr hann enn: „Hvað á ég nú að segja?“ Meðhjálpara leiddist og segir í styttingi: „Af jörð skaltu upp aftur rísa“ – og bætir við: „helvítis klaufinn.“ Hreppstjóri kastar nú af rekunni og hefur nú byrstur öll sömu ummælin eftir.