Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Hvörnin líður kúnin þín?

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Hvörnin líður kúnin þín?“

Þess er getið þegar séra Jón Jónsson var nýlega orðinn aðstoðarprestur hjá föður sínum séra Jóni þá presti til Grundar og Möðruvalla í Eyjafirði, en síðan til Friðriksgáfu. Séra Jón yngri lærði til prests utanlands og var þar síðan mörg ár og giftist þar danskri konu sem kom hingað til lands með honum. Þau bjuggu nokkur ár á Finnastöðum í Grundarsókn. Þá bjó bóndi þar skammt frá sem heitir í Hraungerði, Krákur að nafni. Eitt sinn ól kona hans barn, en fáum dögum síðar kom bóndi að Finnastöðum og hitti prestkonuna. Hún spyr hann að konunni hans og segir: „Hvörnin líður kúnin þín?“ og meinti konuna, því hún kunni ekki íslenzkuna vel. Bóndi var fljótur til svars og segir: „Hún var yxna í morgun, helvítið það tarna.“ Bóndi hélt að hún meinti kú sem hann átti og ekki hélt og beiddi þennan sama morgun og var hann nýbúinn að stríða við að koma henni aftur í fjós. Prestkonan gekk forviða frá honum og er ekki getið um að hún spyrði hann oftar eftir heilsu konu hans.[1]

  1. Jón Jónsson (1787-1869) var aðstoðarprestur hjá föður sínum, Jóni „lærða“ Jónssyni, 1830-1839. Krákur Kráksson fór að búa í Hraungerði 1838 (þá 30 ára).