Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Hvað hét hún móðir hans Jesús?

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

Einu sinni vóru tvær kerlingar á bæ og hófst önnur þeirra upp úr eins manns hljóði um jólaleytið eftir lestur og sagði við hina kerlinguna: „Hvað hét hún móðir hans Jesús?“ „Og hún hét Máríá,“ sagði hin. „Og ekki hét hún Máríá.“ „Og hvað hét hún þá?“ sagði hin. „Og veiztu ekki hvað hún móðir hans Jesús hét? hún hét Finna.“ „Finna?“ sagði hin. „Víst hét hún Finna, heyrðirðú ekki hvað sungið var í sálminum:

Í því húsi ungan svein
og hans móðir finna;

hét hún þá ekki Finna?“ Kerlingin lét aldrei af sínu máli að hún hefði heitið Finna og séu þær ekki dauðar eru þær að deila um þetta enn í dag.