Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Hvað varð þá um soninn?

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Kona eins ríks bónda heldur fávíss ól barn í eitt sinn. Það var nokkur vegur til prestsins og nennti bóndi ekki að færa barnið til kirkju. Barnið andaðist eftir það bóndi hafði skírt það skemmri skírn. Þar næst þegar honum leizt færði bóndi það til prestsins og bað hann að jarða það í vígðri mold. „Nei,“ segir prestur, „það er óskírt!“ „Nei,“ segir bóndi, „ég skírði það sjálfur!“ „Hvernig hagaðir þú orðum þínum?“ segir prestur. „Ég skíri þig í nafni föðurs og heilags anda,“ segir bóndi. „Hvað varð þá um soninn?“ segir prestur. „Hann kemur hér á eftir og leiðir naut sem ég ætla að gefa þér til að grafa það í vígðri mold,“ segir bóndi. Þá er þess ekki getið að prestur hafi haft nein ummæli um að jarða barnið.