Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Hvar var þá sonurinn?

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Hvar var þá sonurinn?“

Fyrir mörgum árum bjuggu hjón nokkur á bæ sem ei eru nafngreind. Konan tók léttasótt og var fengin til kona að vera hjá henni meðan hún fæddi. En þegar barnið var fætt var það mjög líflítið, en langt að ná presti svo yfirsetukonan skírði það skemmri skírn. Yfirsetukonan þjónaði svo konunni og barninu og var þar nokkurn tíma, en barnið lifnaði við.

Stuttu eftir þetta var prestur sóttur að skíra barnið og hélt yfirsetukonan því undir skírn. Prestur spurði þá hvort barnið væri áður skírt, hvorju hún játaði. Þá spurði prestur í hvors nafni það hefði verið skírt. Þá segir yfirsetukonan: „Í Guðs og heilags anda.“ Þá segir prestur: „Hvar var þá sonurinn?“ „Hann var ekki heima,“ „Hvar var hann þá?“ segir prestur. Þá segir yfirsetukonan: „Hann var að leiða yxna kú til nauts yfrum á.“ Þá hætti prestur að spurja og er ekki annars getið en hann skírði barnið án lengri formála. En svo stóð á að hjónin áttu nær því fullorðinn son sem leiddi kúna og var ekki heima þegar yfirsetukonan skírði barnið.