Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Innansleiktur af öllu góðu

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Innansleiktur af öllu góðu

Við vísitatíu Finns biskups að Helgafelli vóru ásamt fleiri ungmennum systur þrjár; þær áttu heima á Þingvöllum. Biskupinn spurði þær og þókti honum þær mjög fáfróðar í þekkingu kristindómsins og áminnti þær og aðvaraði um að taka sér fram, með mörgum orðum og fögrum og benti þeim til þess hvílíkur sálarvoði það væri sem þær með fáfræðinu kynnu að steypa sér í. Þegar úti var fundust systurnar; sagði þá ein: „Það er undarligur maður biskupinn þessi.“ „Það er nú ekki mikið,“ kvað önnur, „hann gjörir ráð fyrir öllu því sem verst má fara.“ „Furðar ykkur á því?“ mælti hin þriðja, „hann er innansleiktur af öllu góðu.“