Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Já ekki spyr ég að honum
Útlit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Já, ekki spyr ég að honum“
„Já, ekki spyr ég að honum“
Maður kom á bæ og sá þar bækur margar; hann ræddi um að bækurnar væru þörf eign og skemmtilegt og nytsamt að lesa þær. Eina bók sér hann er hann dáðist mest að og hefur hönd á og spyr: „Hvaða bók er nú þetta?“ Honum var sagt að það væri Grettis saga. Hann flettir upp bókinni og læzt fara að lesa og segir: „Já, ekki spyr ég að honum, allténd var það eins fyrir honum karlinum.“ Hann heldur áfram að lesa og segir: „Mikill skratti.“ Og enn læzt hann lesa, hlær og segir: „Á, þar drap hann hann.“ Síðan lagði hann bókina frá sér, en það var óvart Vídalínspostilla er hann hélt á.