Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Karlinn og úrið

Úr Wikiheimild

Herramaður nokkur fór um farinn veg. Svo bar til að hann nam staðar einhvers staðar á leiðinni og hvíldist litla stund. Tók hann þá úr vasa sínum gullúr er hann hafði á sér og gáði hve framorðið væri; lagði úrið síðan á stein. En er hann hélt af stað gleymdi hann úrinu. Karl nokkur fór hina sömu leið litlu síðar; var þá kveld komið og tunglskin á. Þá er karlinn kom þar nærri sem herramaðurinn hafði hvílzt heyrði hann tíst nokkuð og sá hann þegar að eitthvað mjög fagurt var þar á steini og lagði birtu mikla af; heyrði hann og að það var þaðan að hljóðið kom. Karl þóttist þá þegar vita að þetta mundi kölski vera og hafa tekið á sig ljóss-engils líki. Herðir hann þá upp hugann og tekur stóran stein og kastar á kölska; sér hann þá hvorki né heyrir neitt í honum framar. Eftir það heldur karl glaður leiðar sinnar og er hann kemur til bæja segir hann frá þrekvirki sínu. Kveðst hann hafa fundið kölska sitjanda á steini í ljóss-engils mynd og hafi hann jafnan sagt „dí, dí;“ kveðst hann hafa molað í honum höggormshausinn með stórum steini og telji hann því mikla von á að kölski muni ei framar mönnum mein vinna eða sálum þeirra banað geta. En það er frá herramanni að segja að hann fer að leita úrs síns og finnur það þar sem hann gleymdi því klesst undir stórum steini.