Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Karlinn sem heyrði svo vel

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Karlinn sem heyrði svo vel

Það var karl nokkur sem þóttist heyra vel, en heyrði í rauninni makalaust illa, en vildi ekki láta það á sig ganga. Einu sinni var hann að höggva við út á skógi. Þá sér hann tvo menn koma ríðandi og einn gangandi. „Þegar þeir koma munu þeir spyrja hvað ég sé að gjöra. ,Höggva axarskaft handa syni mínum,' segi ég. ,Hvað á það að verða Langt?' spyrja þeir. ,Allt upp að kvisti,' segi ég. Þá munu þeir spyrja mig til vegar. ,Hérna norður úr skörðunum,' segi ég. Þeir munu biðja mig að ljá sér merina mína. ,Hún er bæði hölt og skökk og megið þið ríða henni hver[t] sem þið viljið.' ,Blessaður vertu!' segja þeir. ,Vari það sem lengst!' segi ég þá.“

Síðan komu mennirnir og segja: „Sæll vertu, karl minn!“ Þá segir karl: „Axarskaft handa syni mínum.“ „Rekist það upp í rassinn á þér!“ „Allt upp að kvisti.“ „Fjandinn dragi þig á hárinu!“ segja þeir. „Hérna norður úr skörðunum,“ segir karl. „Áttu enga konu?“ segja þeir. Þá segir karl: „Hún er bæði hölt og skökk og megið þið ríða henni hvert sem þið viljið.“ „Farðu bölvaður!“ segja þeir. Þá segir karl: „Vari það sem lengst!“