Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Kaupamaðurinn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Kaupamaðurinn

Eitt sinn fór maður nokkur úr Suðurlandi til kaupavinnu í Norðurland eins og lengi hefir tíðkazt; sumir segja hann hafi lent í Bárðardal. Hann kom að bæ einum; þar bjó fyri bóndi einn vel fjáreigandi. Þar falaði maður þessi kaupavinnu og fekk hann hana. Þar hjá bónda var kona hans og dóttir þeirra og ein vinnukona. Það var venja bónda að taka kaupamann á hverju sumri, en gætti sjálfur fjárs síns, og svo var enn.

Nú er tekið til sláttar og gengur svo hinn fyrsti dagur að ekki er farið að raka ljána eftir kaupamanni. En að nóni kemur vinnukonan og tekur til raksturs og það heldur frískliga og nær þó hvergi nærri kaupamanni. En að kvöldi kemur hún og biður hann raka upp með sér ljána því hún átti heldur stórrisula húsmóðir. Hann játar því með því skilorði að hann megi liggja með henni – ekki getur sagan um hvort það gekk lipurt eður ekki – og fór það fram. En er þau komu heim segir hún húsmóður sinni hún hafi ekki rakað hann uppi og hafi hann rakað með sér. Hún varð við heldur byrst og kvað hana ekki að manni vera. Og á næsta degi skipar hún dóttur sinni til raksturs um sama tíma sem hinn fyrra dag og var þá ljáin sýnu meiri og fór allt á sömu leið um kaup þeirra sem hinn fyrra dag.

Að þriðja degi fór húsmóðirin sjálf og fór henni first um raksturinn – því hann herti á sér – og verða hin sömu lok sameignar þeirra sem hinna fyrri. Þannig leið af allt sumarið. En um haustið greiddi bóndi honum ríflega kaup sitt (því honum líkaði vel vinnan og hafði enginn komið þar sá að líki hans væri að sláttustærð; þar með var hann hinn stimamýksti, boðinn og búinn til alls), sumt í smjöri, en sumt í sauðfé. En er hann hafði afhent honum kaup sitt tekur húsfreyja einn hinn valdasta sauð úr réttinni og fær honum og segir: „Það á að vera fyri hitt okkar, kaup[i] minn!“ En er þær sjá það bóndadóttir og vinnukonan fá þær honum sína kindina hvor með sömu ummælum. Bóndi þenkti þetta mundi endurgjald fyri handhægð og stimamjúka þjónustu og þótti hann hafa til þess unnið, tekur því einn sinn bezta sauð og fær honum með hinum sömu ummælum. Þá skellir bóndadóttir upp yfir sig og segir: „Hann hefir þá farið í hann föður minn líka!“ Kaupamaðurinn fór að svo gjörðu suður með kaup sitt og lyktar svo þessi saga.