Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Kennivaldið í Holti

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Kennivaldið í Holti

Einu sinni átti presturinn í Holti undir Eyjafjöllum að halda líkræðu eftir velmetinn bónda úr sókn sinni sem Tómas hét. Það orð lék á að prestinum þækti góður sopinn og varaðist ekki ævinlega að taka sér neðan í því áður en hann byrjaði embættisverk. Þegar hann átti að mæla eftir bóndann stóð svo á presti að hann var í meira lagi blekaður.[1] Þegar búinn var sálmurinn fyrir gekk hann að líkkistunni, en þó vafðist heldur fyrir honum að byrja ræðuna. Standa þá líkmennirnir upp, taka kistuna og ætla að bera hana út, en í því byrjar prestur og segir: „Ef keisarinn í Róm, kóngurinn í Danmörku, kammerráðið í Vatnsdal og kennivaldið í Holti eru ekki túskildingsvirði[2] þá svei öllu saman, og berið þið nú hann gamla Tómas til síns síðasta hvíldarstaðar,“ því presturinn sá hvort sem var að líkmennirnir mundu ekki ætla að bíða eftir lengri ræðu.

  1. Blekaður er sá kallaður sem er ölvaður, og stendur svo á því að einu sinni hafði drykkjumaður tekið í myrkri blekflösku í misgripum fyrir brennivínsflösku og sopið á henni. Þetta sáu einhverjir gárungar og kölluðu síðan alla drukkna menn blekaða. [Hdr.]
  2. Að presturinn tilnefndi þessa menn kom til af því að það var komið á fremsta hlunn með að sóknarprestur og sýslumaður (kammerráðið í Vatnsdal) Tómasar heitins mældu fram með því að Danakóngur gerði hann að dannebrogsmanni. En „keisarinn í Róm“ sýnist eiga minna skylt við málið. [Hdr.]