Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Kerlingarnar í stigagatinu

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Kerlingarnar í stigagatinu

Eitt sinn voru kerlingar tvær á bæ einum mjög komnar að fótum fram sökum elli og lasleika; önnur var orðin hneppt og gat litla björg sér veitt; hin var lítilfjörlega rólfær, en hafði misst sjónina og var orðin blind. Þá er fólk á bænum var við útistörf geymdu kerlingar þessar baðstofuna. Eitt sinn bar svo við að þegar fólk kom inn lá önnur kerlingin á gólfinu við stigann að baðstofuloftinu dauð og hálsbrotin, en hin hékk þar föst á fætinum í efsta stigahaftinu með höfuðið niður og hélt í pilsgarminn á þeirri sem dauð var. Þótti þetta köld aðkoma sem vonlegt var. Fólkið þyrptist að og tók dauðu kerlinguna og lagði hana til lags. Það bjargaði hinni er í stiganum hékk og það merkti lífsmark með, upp í rúm hennar. Hún var svo langt leidd að hún mátti ekki mæla og gat enga björg sér veitt; var henni hjúkrað sem bezt mátti verða svo hún hresstist og vitkaðist og fékk aftur mál sitt. Hafði fólk þá af henni sanna sögu um atburðinn. Kerlingarnar voru að tala saman hvor í bæli sínu sín í hvorjum baðstofuenda, en þeim kom ekki allt ásamt svo þær reiddust báðar. Vildi þá sú kerlingin er blind var, en gat rölt, fara og berja hina og bröltir hún á fætur; hneppta kerlingin sér til ferða hennar og vill ekki bíða komu hennar í rúminu og byltir hún sér fram úr því, og finnast þær á baðstofuloftinu að hvor náði til annarar, en þá vildi svo óhappalega til að stigagatið varð á milli þeirra, og er hvor togaði aðra að sér hrösuðu þær báðar í það og biðu af áminnzt slys.