Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Kerlingin með skjóðuna

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Kerlingin með skjóðuna

Kerling nokkur fór til jólatíða; hún átti vinkonur þrjár á kirkjuleiðinni er oft viku henni mat, einkum á hátíðum. Kerling bjó sig út með skjóðu til að safna í gjöfunum, hittir fyrstu konuna og fær henni skjóðuna og lætur konan eitthvað í hana og fær henni aftur. Fer kerling nú leið sína og hittir hinar konurnar, og fer á sömu leið, að þær bæta einhverju í skjóðuna. Ber kerling hana svo með sér til kirkjunnar. En er hún kemur í kirkjudyrnar er söngur byrjaður. Hún fer til sætis og syngur: „Heykláfur, heykláfur, heykláfur.“ En er söngnum var lokið fer hún að gæta í skjóðuna. Efst í skjóðunni finnur hún hupp og síðu, hugnar henni það vel og segir: „Blessuð veri hún.“ Því næst finnur hún sperðil og bjúgu og fer á sömu leið að hún segir: „Blessuð veri hún.“ Hún þuklar enn í skjóðuna og þykist finna að þar muni vera rif af síðu, fleiri en eitt eða tvö. Glaðnar þá enn meir fyrir henni og segir: „Og enn rif og enn rif og enn rif, blessuð veri hún.“ En er hún tínir þetta upp úr skjóðunni þá eru það skötustrengsli; verður henni ekki gott við og segir: „Og enn strengur og enn strengur og enn strengur, og bölvuð fari hún og bölvuð fari hún, já, margsinnis bölvuð, fyrir gjöfina.“ Að því búnu lætur hún allt niður í skjóðuna aftur og er ei getið að hún syngi neitt á eftir og fór hún í fússi burt úr kirkjunni og heim til sín með skjóðuna. Var það að kenna skötustrengslunum.