Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Kerlingin sem datt í ána

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Kerlingin sem datt í ána

Kerling var að flakka um Borgarfjörð. Eitt sinn er hún fór yfir Þverá í Þverártungum datt hún í ána og sagði frá því á eftir þannig: „Ég datt í hana Þverá, fuglinn, ó, drottinn minn, fyrir neðan Rauðabergshyljina, skrattinn kom þar yfir höfuðið á mér, hann hefur fyrri gert það, blessaður fuglinn, ó, drottinn minn, og rýjurnar mínar flutu ofan eftir ánni, koppurinn minn synti, ég sat í iðunni, hún drakk sjálf fuglinn, ó, þá sendi Guðmundur minn í Norðtungu barnið sitt hann litla Jón dreng, hann litla Hjálm, hann kom þar og reið ljósum kapli brúnsokkóttum til að hjálpa mér, fuglinn, ó. Þegar ég kom heim að Ásbjarnarstöðum þá var hún ekki hýr í horn að taka eldamóðirin gamla, móðir hans, nei móðir hennar, nei móðir hans Helga míns Magnússonar á Guðnabakka, Ásbjarnarstöðum. Það er blessuð mín sem ég meina til, bæði var það illt og lítið sem hún gaf mér, ekki vanþakka ég það samt.“