Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Klippt eða skorið

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1864)
Klippt eða skorið

Einu sinni komu tvær kerlingar að þúfu nýsleginni. „Tarna er fallega skorið,“ sagði önnur kerlingin. „Og þú lýgur því,“ sagði hin. „Hvað er það þá?“ sagði hin. „Það er klippt,“ sagði hún. „Og hvaða vitleysa er í þér, það er skorið.“ „Ekki er það skorið, það er klippt.“ Þarna voru kerlingar að hnakkrífast hvort grasið sé klippt eða skorið, þangað til þær flugust á og ultu báðar á kaf ofan í tvíbytnupytt sem þar var. Það sást síðast til þeirra að ekki stóðu upp úr nema fingurnir. Myndaði hin kerlingin þá til með fingrunum að það væri klippt, en ekki skorið. Þarna drápu kerlingarnar hvor aðra. Því segja menn þegar menn eru þrákelknir og stagast á hinu sama einlægt: „Klippt eða skorið, sögðu kerlingarnar, og svo fer þér.“