Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Krónan og röðin

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Krónan og röðin

Karl einn var sá er erft hafði og grætt svo mikið fé að hann átti kistu fulla með peninga. Hafði hann raðað peningunum á rönd eftir endilangri kistunni og voru í henni furðu margar raðir. Eitt sinn kemur nágranni hans til hans og biður hann að lána sér eina krónu því sér liggi mikið á því, hann hafi misst bjargargrip sinn, en hafi mikla ómegð fram að færa og hljóti að kaupa annan svo hann flosni ekki upp. Karlinn hrærðist til meðaumkunar við manninn og ætlar að verða við bón hans, gengur að peningakistunni, lýkur henni upp og plokkar krónuna upp úr einni röðinni, en sér að við það losnar röðin og að þær sem næstar voru hölluðust dálítið. Þykja honum það lýti mikil og smokkar krónunni niður aftur, læsir kistunni og segir manninum að hann geti ekki lánað honum krónuna og verði hann að leita þess hjá öðrum.