Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Kveddu að, strákur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
„Kveddu að, strákur“

Bóndi er ekki kunni að lesa, en gat þó nefnt stafina, átti son er hann vildi kenna bóklestur. Drengurinn hafði líka lært hjá einhverjum að þekkja stafina. Gestur kom á bæinn og vildi bóndi láta það sjást að hann væri að mennta son sinn og skipar drengnum að taka kverið sitt og fara að stafa, og tekur hann kverið, en brast nú einurð af því gesturinn var kominn, en þvælir þó eitthvað í að nefna stafi á stangli. Föður hans þykir honum ganga stirt og vill reka eftir honum og segir: „n, g, l, kveddu að, strákur.“ Að stöfum þessum gat drengurinn ekki kveðið og mátti hætta við stöfunina.