Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Lögreður
Lögreður
Kerling nokkur kom til sýslumanns og beiddist skilnaðar við mann sinn. Sýslumaður innir hana eftir orsökinni til þessa og tekur þá kerling að telja harma sína og sá þá sýslumaður skjótt að kerlingu þótti það manni sínum vangefið sem Unni þótti Rút forðum ofgefið, – „því það er sú mesta bölvuð ómynd sem ég hef séð,“ sagði kerling. Sýslumaður spyr ef verkfærið sé það náttúruafbrigði að það sé óhæfilegt eður hvað því bagi helzt. „Og minnizt þér ekki á hann,“ segir kerling, „því þetta óhræsi er ekki nema þrír þumlungar.“ Sýslumaður spurði þá hvort ekki mætti bjargast við svo lítið. „Hvað er að heyra til yðar?“ segir kerling, „þetta er ekki nema einn í hár, annar í skinn og þriðji inn, og hvað verður þá fyrir drættinum, herra minn?“ Kvaðst kerling eigi skyld að láta sér nægja minna en „lögreður“ Sýslumaður kvaðst eigi kunna það í lögum að hann vissi hvað lögreður væri, „eða nægir hann ekki þriggja þumlunga?“ „Nei,“ segir kerling, „nei, einn í hár, annar í skinn, þriðji, fjórði og fimmti inn, það á að fara í dráttinn, og þetta kalla eg lögreður, herra minn!“[1]
- ↑ Það er að sínu leyti eins og Strandamenn hafa lögask, þannig hefir og á landi hér verið lögreður, og er til þess þessi saga. — [Hdr.]