Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Lúsakambur fyrir kú

Úr Wikiheimild

Karl og kerling bjuggu einu sinni í koti. Þeim hafði fargazt fé og allt gengið af þeim svo að þau áttu ekki annað eftir en eina kú. Karl lagði þá á stað með beljuna og ætlaði að selja hana til að fá fyrir hana peninga til að kaupa fyrir aðrar nauðsynjar. Mætti honum þá maður með tvo sauði. „Falleg er kýrin þín, kunningi,“ segir maðurinn. „Fallegri eru sauðirnir þínir,“ segir karl. „Höfum við þá kaup,“ segir maðurinn. „Það skulum við gjöra,“ segir karl. Fær svo karl sauðina, er hróðugur af skiptunum og rekur þá um stund þangað til hann mætir manni sem rekur tvær geitur. „Fallegir eru sauðirnir þínir,“ segir maðurinn. „Fallegri eru geiturnar þínar,“ segir karl. „Höfum við þá kaup,“ segir maðurinn. Fær karl svo geiturnar og þykist nú vel hafa veitt. Síðan mætir hann manni sem hefir hund með sér. Fara þá orð þeirra sem hinna fyrri og fær karl hundinn og þóktist enn hafa vel veitt. Mætir karl svo manni sem hefir lúsakamb. Þeim fara eins orð og skipta. Karl segir þá: „Nú held ég kerlingin mín geti kembt sér í kvöld þegar ég kem heim.“