Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Með kappinu hafa menn það

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
„Með kappinu hafa menn það“

Kerling nokkur kom eitt sinn til kirkju og gekk til skrifta. Þegar prestur sér hana vísar hann henni frá og fer hún. En er að því kom að fólk gengi til bergingar um daginn kom kerling inn með fyrsta hópnum og krýpur niður. Prestur sér hana, vísar hann henni frá og fer hún, en kemur með næsta hópnum, og fer það á sömu leið að prestur sér hana og vísar henni burtu. Kerling fer og snýr við á sér skuplunni og fer inn í þriðja sinni og krýpur þar er skugga bar á hana. Prestur tekur þá ekki eftir henni og útdeilir henni eins og öðrum; en er því var lokið stendur kerling upp og mælir: „Með kappinu hafa menn það, bölvaður.“ Fór hún svo leiðar sinnar.