Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Mikil gersemi ertu Gunna
Útlit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Mikil gersemi ertu Gunna“
„Mikil gersemi ertu Gunna“
Stúlka er Guðrún hét átti barn í lausaleik. Maðurinn sem barnið átti færði henni soðið hangikjöt á sængina. Litlu síðar kemur faðir hennar til hennar; var hann gustmikill og deildi á dóttur sína fyrir barneignina. En er deilunni lauk og karlinn sefaðist segir stúlkan: „Viltu ekki borða hjá mér faðir minn?“ Hann neitar því þverlega. Hún spyr aftur: „Viltu ekki graut faðir minn?“ Hann blótar því. Þá segir Guðrún: „Viltu ekki kjöt faðir minn?“ „Kjöt, áttu kjöt Gunna?“ mælti karlinn. Hún fékk honum síðan kjötið og glaðnaði yfir honum við það; tók hann við og fór að borða; en er hann var búinn að borða nokkuð varð hann hinn kátasti og segir: „Mikil gersemi ertu Gunna, hamingjan gæfi að allar dætur mínar væru komnar eins.“