Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Nú skyldi ég hlæja

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Einu sinni voru hjón; þau áttu þrjár dætur; ekki er getið um nöfn þeirra; og giftust allar þegar þær höfðu aldur til, og skömmu síðar dóu foreldrar þeirra og erfðu dætur þeirra þau. Meðal annarra fjármuna hjónanna var gullhringur og vildu allar eignast hann, en ekki gátu þær orðið ásáttar um hvur hann skyldi hljóta. Loksins kom þeim ásamt að sú sem verst gæti leikið bónda sinn skyldi fá hringinn, og áttu þær að koma til kirkju næsta páskadag og segja frá brögðum sínum.

Nú byrjar sú fyrsta á föstunni að búa sig undir páskana og fer að spinna, en þó sá enginn það sem hún spann. Maður hennar spurði hvað hún væri að gjöra. „Sérðu það ekki?“ segir konan. „Nei,“ segir bóndi, „ég sé að þú fuðrar með hendurnar eins og þú sért að spinna, en ekkert sé ég bandið.“ Konan segir: „Ég er að spinna hýjalín sem er svo smátt að enginn sér það, og ætla ég það í föt handa þér að vera í um páskana.“ Bóndi lét það svo vera, en þegar hún var búin að spinna fór hún að vefa hýjalínið og þar eftir að sauma fötin úr því handa bónda, en aldrei sást neitt og búin voru fötin fyrir páskana.

Nú er að segja frá annarri konunni að einu sinni á föstunni varð hún daufleg og hrygg; bóndi spyr hvað að henni gangi. Hún segir: „Ég sé að þú ert orðinn veikur.“ „Veikur,“ segir bóndi, „nei, ég hef beztu heilsu.“ Konan segir: „Hvaða vitleysa, þú ert tekinn til augnanna og mjög mikið brugðið.“ Bóndi vildi ekki trúa að heldur og féll þessi ræða niður um sinn. En skömmu síðar vekur hún máls á því aftur að bóndi sé veikur og taldi um fyrir honum svo (þó hann segðist alheill) að hann lagðist upp á sængina, og sagði hún að alltaf væri að draga af honum, en hann sagðist vera heilbrigður. Líður svo þar til rétt fyrir páskana hryggðist konan og segir við bónda: „Nú ertu dauður.“ „Nei,“ segir bóndi, „ég er vel lifandi eins og þú og hvur annar.“ Konan grátandi segir: „Ójú, þú ert dauður,“ og þar til telur hún um fyrir bónda að hann ímyndaði sér að hann væri dauður og var hann svo lagður til, og lét konan fara að smíða utan um hann og var búið með kistuna fyrir páskana og átti að grafa á páskadaginn.

Þriðja konan átti mann sem ógnarlega var undarlegur og óviðfelldinn í hljóðunum svo flestir höfðu ógunst á söng hans.

Nú kemur páskadagurinn og fer sú fyrsta til bónda síns, þreifar og strýkur um hann allan og segist vera að klæða hann í hýjalínsfötin, og sagði bóndi sér fyndist hann vera nakinn, en hún sagði það væri ekki að marka, fötin væru svo fín. En sú sem átti dauða manninn lét kistuleggja hann, en hafði þó ofurlítið gat yfir andlitinu sem hann sá út um, og var svo farið með hann til kirkju á páskadaginn. En sú þriðja segir við bónda sinn: „Þú verður, heilla mín, að syngja í dag.“ Hann segir það mundi verða til þess að allur söfnuðurinn færi að hlæja, hún þekkti líklega sönglistina sína. Konan sagði: „Öllum þykir þú syngja vel,“ og þar til taldi hún um fyrir honum að hann trúði þessu og fór til kirkjunnar og fór að syngja og var ekki frítt við að mönnum yrði að brosa. Þar var og líka í kirkjunni bóndinn í hýjalínsfötunum, og þegar kistumaðurinn sá hann (er var raunar nakinn) og heyrði sönginn í hinum þá kallar hann upp og segir: „Nú skyldi ég hlæja ef ég væri ekki dauður,“ en þegar hann sagði þetta rankaði hina við sér og hætti bóndinn að syngja. En hinn hýjalínsklæddi vildi sem fyrst komast út, því í fyrsta komst hann að raun um nekt sína. Maðurinn í kistunni lá þar til úti var messan og fór hann þá á fætur og dæmdist konu hans hringurinn. Og lýkur hér með þessarri sögu.