Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Nú skyldi ég hlæja, væri ég ekki dauður

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
„Nú skyldi ég hlæja, væri ég ekki dauður“

Einu sinni vóru tvær konur að þrætast á um það hvur þeirra ætti heimskari mann svo loksins kom þeim saman um að þær skyldu nú reyna, hvurt þeir væru eins vitlausir og þeir sýndust að vera. Tók þá önnur konan það til bragðs þegar maður hennar kom heim frá vinnu sinni að hún tók rokk, sezt niður og fer að spinna í mesta ákafa en samt án þess að hafa neina ull eða annað á milli handanna. Þegar maðurinn sér þetta spyr hann konu sína hvurt hún sé gengin frá vitinu að vera að þeyta rokkinn án þess að spinna neitt og biður hana að segja sér hvað þetta eigi að þýða. Hún segir að það sé varla von að hann sjái það sem hún sé að spinna því það sé híalín og eigi að vera í föt handa honum. Hann er einlægt að furða sig á hvað kona sín sé vel að sér og hlakkar mikið til að fá þessi föt sem séu svona makalaust fín og falleg. Nú þegar konan læzt vera búin að spinna nóg í fötin fer hún að setja þetta upp í vefstólinn og þykist svo fara að vefa. Maðurinn er að smávitja um hana og dást að kunnáttu hennar. Hún hefur mikið gaman af þessu og flýtir sér að koma öllu þessu laglega í kring. Nú þykist hún taka þetta úr vefstólnum og fer fyrst að þvo það og þæfa og seinast fer hún að sníða og sauma. Þegar hún er búin að þessu öllu biður hún mann sinn að koma og máta fötin og segist ekki þora að láta hann fara einsamlan í; hún segist því skuli hjálpa honum og læzt nú færa hann í öll fötin. Manngreyið var nú nakinn, en hafði þessa ímyndun að konan sín hefði búið sér til svona fín föt, og var svo lukkulegur yfir þessu að hann réði sér ekki af gleði.

Nú er að segja frá hinni konunni að þegar maður hennar kemur heim spyr hún hann því hann sé á fótum. Manninum þykir þetta undarleg spurning og spyr hana því hún tali svona. Hún telur honum trú um að hann sé sárveikur og honum sé langbezt að fara upp í rúm. Hann trúir öllu þessu og fer sem fljótast að hátta. Svo þegar nokkur tími er liðinn segist hún ætla að fara að leggja hann til. Hann spyr hvurnin stendi á því. Hún segir að hann hafi dáið í morgun og það eigi að fara að smíða utan um hann. Svona liggur hann þangað til hann er kistulagður. Síðan ákvarðar hún greftrunardaginn og tekur til sex líkmenn og biður nú hin hjónin að fylgja manni sínum til grafarinnar. Kona dauða mannsins hafði látið gjöra glugga á aðra hliðina á kistunni svo hann gæti séð það sem við bæri. Þegar á að fara að hefja líkið út kemur sá sem í kistunni er auga á bera manninn og hrópar upp svo hátt sem hann getur: „Nú skyldi ég hlæja, væri ég ekki dauður.“ Svo var hætt við að grafa og honum hleypt upp úr kistunni.

Hvur þessara var nú vitlausari?