Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Oddur Hjaltalín og galdramaðurinn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Oddur Hjaltalín og galdramaðurinn

Þegar Oddur Hjaltalín þjónaði landlæknisembættinu[1] og sat að Nesi við Seltjörn frétti hann að maður einn gamall væri þar í sókninni sem kynni galdur, og heyrði margt frá sagt brögðum hans. Þókti Oddi fýsilegt að komast í kunnleika við mann þennan og tókst honum það brátt svo hann varð aldavinur Odds. Fundust þeir nú oft og hjöluðu margt tveir einir; fór nú Oddur að ræða við hann um galdra og hrósaði mennt þeirri. Hinum hugnaði það vel og svo kom að hann sagði Oddi af trúnaði allt um galdra sína, og vildi Oddur nú reyna mennt hans og bað hann vekja upp draug svo hann sæi. Hinn lét að slíkt mundi sér létt falla, en viðbúnað þyrfti hann þó nokkurn að hafa; kvaðst hann mundi láta Odd vita nær hann væri búinn, og samdist þetta með þeim. Og er að stefnudegi kom fara þeir báðir, galdramaðurinn og Oddur með honum, í kirkjugarðinn í Reykjavík; var það um miðnætti með nýju tungli í dimmu veðri svo allt væri sem skuggalegast. Þegar þeir koma í garðinn vísar Oddur galdramanninum á leiði eitt lítið og lágt og biður hann veki þar upp þann sem undir liggi.Tekur nú galdramaður til starfa, hefur nú ýmsa kátlega atburði og kynlegt látbragð og fer nú að hafa upp í hálfum hljóðum ramar galdrabænir og særingaþulur. Gengur þetta lengi og kemur ekki draugurinn. Oddi fer að leiðast og tekur heldur að ámæla félaga sínum fyrir ónytjungshátt hans og segir að enginn sé dugur í honum til slíkra starfa og skuli hann nú sýna honum hvernig sér gangi. Oddur hafði staf í hendi; víkur hann sér lítið afsíðis, reiðir stafinn og slær í eitt leiði mikið högg og segir: „Komdu hér upp, djöfull, ég skipa þér.“ Og jafnsnart sér galdramaðurinn að ógurlegur draugur rís þar upp sem Oddur sló niður stafnum; sýnist honum líka að draugur þessi muni ætla að ráðast að sér og tekur nú á rás eftir kirkjugarðinum, en er hann kemur að hliði garðsins er draugurinn kominn á hæla honum. Hleypur nú galdramaðurinn yfir allt sem fyrir var til að firrast drauginn og þókti eiga fótum fjör að launa þá er hann náði heim til sín.

Draugur Odds var maður sem hann lét liggja í leyni í kirkjugarðinum. En hverjar skriftir galdramaðurinn fengið hafi hjá Oddi síðar geta þeir einir gizkað á sem þekktu Odd og heyrðu hann tala.

  1. Oddur Hjaltalín (1782-1840) var settur landlæknir 1816-1820.