Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Páll í Fagurey biðst fyrirgefningar

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Páll í Fagurey biðst fyrirgefningar

Í Fagurey bjó eitt sinn bóndi sá er Páll hét. Hann var gildur bóndi og hélt mörg hjú á búi. Hann var og drykkjumaður að sið heldri manna á þeim dögum. Eitt sinn fór hann á laugardag í góðu veðri með konu sinni og stúlkum nokkrum heiman frá sér á báti og ætlaði til kirkju að Helgafelli daginn eftir og fá þá sakramenti hjá presti sínum. Vandaði hann því ferð sína mjög bæði að klæðaburði sem og því að hafa nokkuð á pyttlunni; var þetta seint á slættinum. Og er hann var skammt á leið kominn fór hann fram með eyjartanga er vinnumenn hans vóru við slátt, og er þeir [sjá] ferð húsbónda síns ganga þeir á klettsnös nokkra þar báturinn átti leið undir. En er Páll sér pilta sína kemur honum til hugar að hann ekki hafi minnzt við þá að kristnum sið og þykir að ekki megi svo búið vera; stendur hann þá upp í bátnum, tekur ofan hattinn, veifar að þeim og segir: „Fyrirgefið mér, andskotans djöflarnir ykkar. það sem ég hefi gert ykkur á móti, en það mun ekki vera mikið.“ Að svo mæltu settist hann niður og fór leið sína.