Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Presturinn og djákninn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Presturinn og djákninn

Einu sinni var ríkur prestur, en fjarskalega kvikinzkur; hann átti sér gamla móður. Í nágrenni við hann bjó djákni hans, sárfátækur maður; hann átti sér son frumvaxta. Honum var heldur í nöp við prestinn fyrir sakir nízku hans. Nú vill svo til að móðir prestsins deyr. Var lík hennar sett út í kirkju og átti þar að bíða greftrunar.

Um nóttina fara þeir djákninn og sonur hans að taka lík kerlingarinnar og setja það inn í skreiðarhjall prestsins og róta um allri skreiðinni; setja þeir kerlinguna í miðjan skreiðarhlaðann og láta hana halda á hálfrifnum og nöguðum fiski. Um morguninn eftir kemur prestur í skreiðarhjallinn og sér hvað um er að vera. Verður honum bilt við þetta með því samvizkan sló hann líka því hann hafði ekki betur en tímt að gefa kerlingunni mat heldur en öðrum. Hugsar hann sér nú ráð og af því hann vissi af djáknanum fátækum fer hann til hans og segir honum að kerlingin hún móðir sín sé afturgengin og segir honum upp alla sögu. Segist hann skuli gefa honum alla skreiðina til þess að grafa kerlinguna svo vel að hún gangi ekki aftur, segir líka að sér bjóði við að éta skreiðina úr því svona sé komið. Djákninn gengur að þessu og þó heldur treglega. Hirðir hann samt skreiðina og grefur síðan kerlinguna vel og vandlega í viðurvist prests.

Næstu nótt taka þeir feðgar kerlinguna upp aftur og setja hana í smjörklefa prestsins, róta til smjörbelgjunum og stinga smjöri upp í kerlinguna og láta hana vera kámuga um fingurnar. Daginn eftir kom prestur inn í smjörklefann og verður nú hálfu hræddari en hið fyrra sinn þegar hann sér hvað um er að vera. Býður hann djáknanum nú allt smjörið úr klefanum til þess að grafa kerlinguna svo að hún gangi ekki aftur framar. Djákninn gengur með nokkurri tregðu að kaupunum, hirðir smjörið og grefur kerlingu hálfu dýpra en fyrr.

Næstu nótt taka þeir feðgar upp líkama kerlingar og setja hana nú í kornbúr prestsins. Róta þeir til kornbingjunum og setja kerlu ofan í þá og láta hana hafa ausu í hendinni. Daginn eftir kemur prestur inn í kornbúrið og sér hvað um er að vera. Verður hann nú öldungis frá sér og biður djáknann að losa sig við kerlinguna; hann skuli fá allt kornið sitt í staðinn. Eftir langa undanfærslu gengur djákninn að kaupunum, tekur kornið og grefur kerlingu miklu dýpra en fyrr.

Næstu nótt grafa þeir feðgar kerlinguna enn upp og skauta henni og búa og geyma hana svo hjá sér. En svo ber við um daginn að prestur reið eitthvað frá bænum og reið merhrossi. Þá taka feðgarnir graðfola ótaminn, setja kerlingu á hann og binda hana niður og hleypa svo graðfolanum á stað á eftir merinni sem presturinn reið. Prestur sá eftirförina og þótti ekki góð því folinn náði honum fljótt og fór að viðra sig upp við merina sem prestur reið. Reið þá prestur í ofboði heim til djáknans, en folinn hljóp hvíandi með kerlinguna á eftir. Bað prestur nú djáknann í öllum hamingjubænum að duga sér. Eftir mikla eftirgangsmuni tókst djákninn það á hendur fyrir klyfjaðan hest af peningum. Greiddi prestur peningana með ánægju, en djákninn tók við þeim og gróf nú kerlinguna miklu dýpra en nokkru sinni fyrr, enda kom hún aldrei á kreik framar.

Eftir þetta varð prestur hinn mesti bjargvættur djáknans því hann þóttist aldrei geta launað honum eins og vert væri fyrir það að hann sá fyrir kerlingunni.