Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Presturinn sem gekk í svefni

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Einu sinni var ókvæntur prestur nokkur. Hann hafði hug á bóndadóttur einni þar í sveitinni; en ekki var bónda um það, einkum þar eð hann þókti heldur pokaprestur.

Einu sinni kom prestur til bónda og biður hann að lofa sér að vera. Bóndi gerir það og tekur presti hæfilega. Svo er presti vísað til rúms um nóttina. En þegar allir eru sofnaðir hugsar prestur gott til að finna bóndadóttur því hann vissi hvar hún svaf. Fer hann nú á fætur og ætlar að finna bóndadóttur, en villtist og þóttist hann koma í skóg nokkurn. Hann sá þar fögur tré og mörg epli og loksins klifrar hann upp í eitt tréð og fer að sjúga eitt eplið. Um morguninn þegar bóndi vaknar biður hann konu sína að fara fram í eldhús og kveikja í pípunni sinni. En þegar konan kemur fram í eldhúsið þá sér hún hvar prestur er kominn upp á bita og er að sjúga kálfsiður. Konan gengur þá til prests og segir að mikil ósköp séu á honum að vera hérna upp í eldhúsinu. Prestur segir að hún skuli ekki minnast á það því það fari svo oft fyrir sér að hann gangi í svefninum. Hann biður hana að láta engan vita af þessu og sízt bónda. Kemur svo konan presti inn í rúm sitt svo enginn veit af. Svo líður dagurinn til næsta kvölds og var prestur um kyrrt þennan daginn.

Þegar háttað er um kvöldið hugsar prestur með sér að reyna nú aftur og láta ekki fara fyrir sér eins og fyrr. Hann leggur nú á stað, en villist eins og í fyrra skiptið. Þykist hann lengi villast um eyðimörk og kemur loks þar að hann þykist detta ofan í dý. Komu þá hundar og hrafnar og ætluðu að éta prestinn lifandi. Um morguninn þegar konan fer að sækja bónda vatn að þvo sér úr sér hún að prestur er í bæjarforinni og hundar og hrafnar eru komnir utan um hann. Konan tautar nú yfir honum hvaða undur á honum sé; en prestur hefir sömu svör og fyrri. Líður þessi dagur slyndrulaust eins og hinn.

Þriðju nóttina heldur nú prestur á stað og einsetur sér að láta nú ekki fara fyrir sér eins og fyrri næturnar. Þykist hann þá lengi ganga með fram sjó og loksins þarf prestur að gjöra þarfindi sín svo hann sezt niður til þarfinda sinna við sjávarhamra nokkra. En þess er getið á meðan að bóndi vaknar með andfælum inni og biður konu sína að sækja sér að drekka. Ætlar hún að gjöra það; en þegar hún kemur fram í búrið þá sér hún að prestur situr á keraldsbarminum og er að skíta í það. Brast þá konuna stillingu og segir presti hvar komið er. Bóndi fór þá á flakk og flæmdi prest í burtu og er þess ekki getið að hann legði hug á bóndadóttur framar. Sagt er að bóndi hafi valdið þessum villum prestsins með sínum fítonsanda því hann var fjölkunnugur.