Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Rógmundarbréf

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Rógmundarbréf

Heiðarligum, háttvelbornum, sómagæddum, síðskrýddum. frómum, frábærum, dyggðaríkum, dáfríðum, forstöndugum, siðavöndum, vellærðum, víttfrömuðum, ærusömum, elskuligum, táteygðum, tvítóluð um sjálfs herra kóngsins umboðsmanni yfir allri Hnappadalssýslu á Íslandi, Magnúsi Rógmundssyni, ættgöfugum, virðuligum og víðfrægum, hver að með dáð og dugnaði rausn og röksemd, frið og frelsi rigtugliga regirer og glöggliga grundar réttvísina hana vel rækjandi, ógjörningana siðandi, ranglætið aukandi, reyfarana hatandi, straffinu hótandi, Tyrkjanum trúlega mótstandandi, með Blámönnum fram brunandi skurðgoðadýrkanda skelfandi, töframennina trúliga brennandi, við sakaða í gegn sjáandi, landið prýðandi, fögnuðinn fýsandi, heilráðum heitandi, kóngsbréf og dóma með kostgæfni vel athugandi, lögin lipurliga fram segjandi, hest sinn bezt alandi, kotungana kúgandi, undir niðri þungt róandi, skatt og skyldur skarpliga heimtandi, þussliga þegjandi, hrútana kaupandi, á alþingi aumt til stundandi, af meistaranum mótkast mætandi, ríksdalina í sinn skatt fáandi og þar af sig stórliga stærandi, blóðið úr beinunum tappandi, í kaupstaðina læðuliga ljúgandi, vandahöggin upp á leggjandi, á kopíurnar vel skrifandi, margt óþarft hugsandi, meira þó talandi og þar fyrir sýsluna missandi, frekliga hlaupandi, fúslega gangandi, ámátliga æpandi og drussliga drynjandi, vareygðarsamliga allt mannligt skikk hofferðugliga hatandi sýslumanni hér stundliga í náðinni, en annars heims eilífliga í Dyflunni á Írlandi húsbónda mínum.

Það er nú efnið orðanna, benvítis húsbóndinn, að ég bið þig að senda mér það sem ég með þarf, þá ég fer út á sjóinn að fá nokkuð ofan í horkindurnar þínar því þá er ekki á mér þurr þráður heldur en á kæfðum ketti, og það segi ég þér í fullri alvöru og í jötunmóð að ef þú sendir mér ekki togann og skinnstakksskinnin sem ég um bað þá skal ég strjúka úr skiprúminu og aldrei út fyrir þig róa hvörki þessa heims né annars, og sama segir Jón Ormsson og ég.

Svo far vel, vale. En beri svo til að þú missir ryktið, æruna og embættið á því ári 1693 þá skal ég aftur koma og út fyrir þig róa. Sittu nú séliga, drekktu nú dagliga, stattu nú stássliga, liggðu nú ljótliga, sofðu nú sérliga, þar til Baldur bærist, úlfur ærist, sjöstirnið sígur, sveitakellingin mígur, að vitni allra þeirra sem ekki sjá né heyra. Og svo er það ekki meira.

Kveðja utan á: Mjög ófrægum Magnúsi Rógmundssyni berist þetta blað í mund, blóðkjöftugum lúsahund.[1]


  1. Í handritum er fjöldi slíkra bréfa og er þetta tekið sem sýnishorn úr safni Jóns Árnasonar.