Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Rata skærin götu sína
„Rata skærin götu sína“
Einu sinni voru hjónaefni sitt á hvorum bæ; var brúðarefnið heimasæta hjá foreldrum sínum, en brúðgumaefnið á öðrum bæ. Hann fór svo einu sinni að hitta unnustu sína og færði henni grænt klæði í samfellu sem hún átti að hafa á brúðarbekknum. Þegar maðurinn kom var komið undir rökkur og var svo setið góða stund í rökkrinu; maðurinn sat í sama húsi og unnusta hans og foreldrar hennar, og verður hann þess var að hún tekur klæðið og fer að klippa það sundur og lætur sem hún sé að sníða. Segir þá maðurinn við hana: „Sérðu að tarna, heillin mín, í dimmunni?“ Hún svarar og lét skærin ganga sem áður: „Rata skærin götu sína.“ En þegar komið var með ljósið var engin pjatla svo stór eftir af klæðinu að hún yrði notuð í íleppa. Tók þá maðurinn hatt sinn og kvaddi og sagði að hún skyldi ekki ónýta fleiri fataefnin fyrir sér.