Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Rauðflekkóttur bolakálfur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Rauðflekkóttur bolakálfur

Einu sinni í fyrndinni var veizla haldin mjög ríkugleg og var maður sá boðinn til veizlunnar sem var kunningi brúðgumans. Maður þessi gat ekki nærzt á neinu því sem á borð var borið. Brúðguminn spurði hvorju þetta sætti, en gesturinn svaraði engvu þar til. Brúðguminn spurði hvert hann væri veikur; hinn kvað það satt vera. En þegar brullaupinu var slitið fór gestur þessi heim til [sín] og skreiddist með veikum burðum í bólið. Foreldrar hans vildu vita hvernig kvillinn hagaði sér, en hann var dulur á því og kvað það engvum koma við, en þeim sárnaði þetta og sendu mann á læknis fund að leita syni sínum hjálpar. Þegar hann kom til læknisins spurði læknirinn eftir veikleika sjúklingsins, en sendimaðurinn gat ekki frætt hann á því. Læknir þóttist nú í mesta vanda staddur að frétta ekkert um sjúkdóminn og skipaði sendimanni að fara heim aftur og sækja þvag sjúklingsins og sýna sér. Maðurinn gjörði eftir því sem honum var fyrir lagt, hellti þvaginu á flösku og fór svo á stað með það á leið til læknisins. En á miðri leið vildi svo óheppilega til að þegar sendimaður stökk yfir læk eða skurð datt manntetrið og braut flöskuna og missti niður dropann sem í henni var. Nú varð hann hreint ráðalaus, þorði ekki heim aftur, en þótti minnkun að koma til læknisins við svo búið því þá hefði ferð hans orðið til ónýtis. En til allrar lukku vóru margar kýr þar í haganum. Þá kemur honum til hugar að bíða þar til einhvur kýrin pissaði. Honum tókst þetta loksins sökum hans staklegu þolinmæði; einni kúnni varð mál og sendimaður færði þar undir stórt drykkjarhorn og fyllti það að lokum, fór síðan í braut til læknisins, vel ánægður yfir dropanum sem hann bar í horninu, og færði síðan lækni hornið þegar hann kom til hans. Læknirinn hellti úr því á glas og skoðaði vandlega. Síðan sagði hann: „Ég sé öngvan sjúkdóm fólginn í manninum (eða skepnunni) nema hún gengur með rauðflekkóttan bolakálf, og get ég ekki sent nein meðöl við því.“ Sendimaður fór af stað við svo búið og sagði húsbændum sínum svo sjúklingurinn heyrði. Þau urðu ókvæða við og sögðust ei skilja í því hvurnig á því stæði þegar sjúklingurinn væri karl en ekki kona, en sögðu það mundi þó vera satt sem læknirinn segði. Sjúklingurinn trúði því líka og um nóttina strauk hann í burtu þá fólk var í svefni, og hugsaði að ala kálfinn út á víðavangi þar sem enginn maður yrði var við.

Hann fór nokkra daga huldu höfði þangað til hann var orðinn skólaus og gekk næstum á berum fótunum. Vildi svo heppilega til að hann fann dauðan mann freðinn sem var í stígvélum. Sjúklingurinn sem áður var þóttist vel hafa veitt og braut af fæturnar í hnjáliðunum því hann vantaði hníf, og bar þá í poka sínum og hélt heim til næsta bæjar því nú þekktist hann ekki vegna þess hann var kominn svo langt frá sínum átthögum og þar að auki þrýsti neyðin hönum til að þíða fæturnar úr stígvélunum. Þegar hann kom á bæinn beiddist hann gistingar og fékk hana, en hann vildi hvurgi sofa nema undir palli og lagði stígvélin með fótunum í til fóta sinna svo enginn maður þar á bænum [skyldi sjá þau]. En svo bar til að á þessum sama bæ bar kýr um nóttina og vakti allt fólkið yfir henni; kýrin átti rauðflekkóttan bola sem var borinn inn á baðstofugólfið, en fólkið fór út í fjós að gæta kýrinnar. Nú víkur sögunni til gestsins; kálfurinn gaulaði, en gesturinn vaknaði við vondan draum. Honum datt nú ekki annað í hug en að hann væri búinn að fæða kálfinn og þóttist merkja að hann væri rauðflekkóttur, stökkur síðan af stað og skildi eftir fæturnar í ógáti og hleypur af bænum og veit ég ei til hans framar. Síðan kom einhvur af heimilisfólkinu inn í bæinn og sér, að kálfurinn er á gólfinu og þar að auki að gesturinn er horfinn, en fótastúfarnir liggja til fóta í bólinu, verður dauðhræddur, hleypur út til fólksins sem var í fjósinu og segir hvað fyrir sig hafi borið, og varð það ályktun allra að kálfurinn hafi étið gestinn og séu til merkis fæturnir [er] lágu í rúminu. Síðan ræðir það um hvurnig skuli ráða kálfinn af dögum og samþykktu allir að rífa gat á baðstofuhliðina þegar birti af degi og bera grjót inn á pallinn og freista hvurt kálfurinn yrði hæfður ofan um lúkugatið. Þegar birti af degi var farið að fullnægja dómnum og rifu nokkrir gatið á hliðina, en aðrir báru að grjótið á meðan, og síðan voru tilskipaðir þeir sem kastfimastir voru að grýta kálfinn í hel sem þeim veitti næsta létt því kálfurinn var rétt við stigann. En þá hann var fallinn að velli hljóp hvur með sína grélu og pikkaði hann þar til allir ályktuðu að kálfurinn væri vissulega dauður. Síðan var kálfurinn dreginn til sjóar og brenndur til ösku þá vindur stóð af landi, og askan færð út á sjó og sáð þar útbyrðis og kann ég nú ekki að segja neitt framar af kálfinum eða manninum sem varð sjúkur, og lýkur svo þessari frásögu.