Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Sá heilagi Davíð

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sá heilagi Davíð

Einu sinni sendi prestur vinnumann sinn að kaupa ket að bónda sem Davíð hét. Þetta var á sunnudagsmorgun. Prestur embættaði um daginn, en í ræðunni vitnaði hann til Davíðs og segir: „Hvað segir sá heilagi Davíð hér um?“ Í þessu bili kemur vinnumaður prests í kirkjudyrnar frá ketsókninni og hélt að prestur meinti Davíð bónda og segir: „Hann bölvar því ketinu að þér fáið hjá sér.“