Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Sálin má ei fyrir utan kross

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1864)
„Sálin má ei fyrir utan kross“

Einu sinni var niðursetukerling á Skarðsströnd innanverðri, en á miðri Ströndinni heitir bær á Krossi, en tveim bæjarleiðum utar er Ballará. Nú kom sem lög gera ráð fyrir að hreppaskilum um haustið og þá er sveitarómögum skipt niður á bæi og hlauzt svo til að setja átti kerlinguna niður á Ballará. En þegar kerling heyrði þetta varð hún hamslaus svo engu varð við hana tætt og sagðist aldrei skyldi þangað fara ódregin og lifandi. Var þá gengið á kerlingu hvað að henni gengi og því hana hryllti svo við að fara á þenna bæ, grandlaus og meinlaus kerlingarkind sem aldrei hafði látið í sér krimta hvernig sem með hana var farið. Þá kom upp úr kafinu hjá kerlingu að hún hafði einhvern tíma heyrt sungið í Hallgrímssálmum:

„Sálin má ei fyrir utan kross
öðlast á himnum dýrðar hnoss.“

Þetta skildi kerling svo að hljóðaði upp á Skarðsströnd og yrði enginn sæll sem þar byggi fyrir utan Kross, en fyrir innan Kross þóttist hún óhult um sálu sína.