Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Sáluhjálparfræðsla

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sáluhjálparfræðsla

Karl og kerling voru og norður í Eyjafirði og fóru börn þeirra til kirkju á páskadag, en hjónin voru heima. Þegar börnin komu frá kirkjunni spurði móðir þeirra hvað sungið hefði verið. Karlinn greip þá fram í og sagði: „Ætli það hafi ekki verið gamla vanaversið:

Faraó, Golíat, formenn tveir,
fallegir piltar voru þeir;
þeir eltu kapalinn upp með á
og ofan með á, halelújá.“

Þá sagði kerlingin: „Guð gæfi þið væruð, börn, eins vel upp frædd í ykkar sáluhjálparefnum eins og hann faðir ykkar.“