Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Sagan af Lárensíusi bónda
Sagan af Lárensíusi bónda
Einu sinni bjuggu hjón; maðurinn hét Lárensíus. Þau áttu eitt barn á fyrsta ári; líka áttu þau eina kú og bóndinn fjörugan reiðhest hver eð stóð ætíð að stalli þegar kýrin var inni. Vetur var góður so bóndi var hvurn dag á skógi að höggva tré og eldivið til að selja sér til lífsbjargar; við þetta starf varð bóndinn leiður og stygglyndur við konu sína fyrir það að hún lægi heima og gjörði ekkert til gagns, en hann mætti berjast einn fyrir öllu búinu. Konan segir: „Þú segir satt, ég skal fara á morgun, en það lítið sem ég hef gjört daglega verður þú að gjöra, það er að fara með barnið, matreiða handa okkur, þjóna kúnni og gefa hestinum.“ „Sjálfsagt,“ segir bóndi.
Morguninn næsta fer konan til skógar, en bóndinn tekur barnið og fer að hampa því og leika við það, en það vill með öngvu móti þýðast hann. Hugsar hann því muni kalt vera, leggur það í vögguna, hleypur fram, kemur aftur með eldshelluna vel heita og leggur ofan á höfuðið á barninu og treður vel í kring so hvurgi geti komizt að því loft. Nú þagnar barnið, en hann fer ofan, kveikir eld og lætur mjólk í pott til flóunar og lætur hlemm yfir og kyndir sem hann getur unz fer að sjóða upp með hlemmnum, þrífur hálsklút sinn og treður meðfram hlemmnum, en það dugði ekki, spýttist allt niður í eldinn so hann dó. Fór hann þá að hugsa um barnið og var það þá steindautt. Verður bónda nú bilt við, afklæðist og leggst upp í rúm til að verma það áður en konan kemur og liggur til kvölds, man þá eftir að ógefið er hestinum, hleypur ofan í brók og skyrtu og til hestsins hvur orðinn var óður af sulti, glefsar til og lendir milli læra bónda, nær í það sem fyrir varð og klippir hreint burt. Skríður bóndi nú sona verkaður heim aftur, vill nú ekki verða fyrir konu sinni, ræður af að skríða inn í óninn. Að því búnu kemur konan, gengur til eldhúss og ætlar að leggja vettlinga sína á hilluna, heyrir hún þá kveink inn í óninum og fer að skyggnast og sér hann þarna þá grátandi, og segir: „Sæll vertu heillin mín, hvaða ósköp gengur að þér?“ Hann segir: „Minnstu ekki á það, barnið okkar er dautt.“ Hún spyr hvurnin það hafi til borið; hann segir sem var. Hún segir: „Kærum við okkur hægt um slíkt, við getum aflað til annars.“ Líka sagði hann henni um mjólkina; hún segir eitthvað yrði þeim til matar, „en komdu strax, við skulum fara að hátta og sjáum so hvurnin fer, fyrsti tími er beztur“. Hann segir þá: „Eitt er atvikið eftir, skoðaðu gæzkan mín“ – og sýndi henni sár sitt. Henni bregður þá mjög við og segir: „Þetta var lakara atvikið, hvurnin skeðu þessi ósköp?“ Hann segir sem var. Hún verður þá so reið að hún tekur til að formæla honum og berja, en hann að hljóða. Í því kemur nágrannakona hennar, gengur á hljóðið og spyr vinkonu sína því hún breyti sona grimmdarlega við manninn sinn. Hin svarar: „Hann hefur drepið í dag eina barnið sem við áttum og líka skemmt fyrir mér matinn, og þykir mér þetta ekkert. En það þykir mér verst og fyrir það ber ég hann að þingin sem mér hafa og framvegis áttu að þjóna lét hann hestskrattann bíta hreint burt.“ Hin svarar: „Þá skal mig ekki furða þó þér gremdist.“ Hún hafði með sér einn víghund og af sampíning með vinkonu sinni etjaði honum á hann so hann reif hann í sundur til dauða. Og ljúkum við sögunni þannin.