Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Snúið líkkistum í Grímsey

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Snúið líkkistum í Grímsey

Í Grímsey var það siður þegar dánir menn voru jarðaðir að snúa líkkistunni þrjá hringa úti fyrir kirkjudyrunum. Hélzt sá siður til þess hér um bil 1830. Svo stóð á að borið var lík úr kirkju til grafar. Var þá kistunni snúið eins og vant er fyrir utan kirkjudyr. En þegar búið er að snúa henni fleiri en einn hring ætla sumir líkmennirnir að snúa henni enn, en hinir hamla því. Varð úr þessu viðdvöl nokkur og svo umtal. Sögðu sumir að búið væri að snúa kistunni þrjá hringa, en aðrir sögðu að það væri ekki búið að snúa henni nema tvo hringa, og varð engin vissa fengin um þetta. Loks kvað Tómas á Borgum († 1842) upp úr og segir: „Og snúiði honum (ᴐ: dauða manninum) einn hring ennþá; honum verður aldrei of snúið.“ Var nú svo gjört.

Eftir greftrunina sagðist meðhjálparinn Jón aftaka að líkum væri oftar snúið fyrir kirkjudyrum, þar hneyksli gæti þar af orðið. Þar við lögðust snúningarnir niður.