Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Spáin

Úr Wikiheimild

Karl var sá eitt sinn í Borgarfirði er bjargaðist við lítil efni; hann var ráðvandur og hafði á sér mannhylli góða. Á haustum var það venja hans að ferðast út á Akranes að afla sér matfanga. Hann skorti kaupeyrir og fékk því það eina er honum var gefið. Honum varð gott til beininga og bar til þess að hann spáði fyrir um aflabrögð næstu missiri og gekk það oft eftir er hann spáði og festu því margir trúnað á spár hans.

Eitt haust var það að karl kom; leituðu þeir að vanda til um spáfrétt hans og kvað hann á að þá mundi verða bezta fiskiár. Bændum hugnaði vel spádómurinn og gáfu karli betur en áður; reyndust aflabrögð um veturinn og vorið með minna móti og grömdust þeir mjög karlinum. Haustið eftir kom hann aftur; átti hann þá ekki vinum að mæta; ámæltu þeir honum mjög fyrir spádóma hans og ákváðu að kölski mætti trúa honum og kváðu maklegt væri að þeir gæfu honum þá ekkert. En er karl varð fyrir slíkum harðindum af þeim mælti hann: „Verði það mér verst fundið að geti ég góðs til guðs.“