Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Spaðbitarnir og krónan

Úr Wikiheimild

Bóndi var sá er vænt þótti um að eignast peninga og lagði allt í sölurnar til þess; seldi hann árlega mat úr búi sínu fyrir peninga og svelti sjálfan sig, konu sína, börn og hjú. Kom eitt sinn hallæri af matskorti; varð matsalan bónda því arðmeiri enda sparði hann því fremur mat við sig og hyski sitt. En síðast átti hann eftir fáeina spaðbita. Kom þá maður til hans og bauð honum krónu fyrir málsverð. Bóndi tekur við krónunni og veltir henni í lófa sér langa stund, en svo fór að hann tók hana í vasa sinn, en fékk manninum spaðbitana. Daginn eftir hvarf bóndi og var hans leitað og fannst hann hjá túngarði dauður með krónuna í munni sér.