Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Stampinn braut hann

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
„Stampinn braut hann“

Einu sinni fékkst engi bakstur í Keflavík og sendi presturinn á Stað í Grindavík tvo karla austur á Eyrarbakka að kaupa bakstur. Hann var í tilslegnum ílátum sem þeir kölluðu stampa. Þeir báru sinn stampinn hvor til baka, og datt annar stampurinn í Mjöltunnuklifi og brotnaði. Þeir tíndu brauðið upp í poka og færðu presti. Nokkru seinna var sá karlinn til altaris sem ekki braut stampinn. Þegar presturinn var að tóna innsetningarorðin og sagði: „Tók hann brauðið, gjörði þakkir og braut það –,“ þá kallaði karlinn upp: „Lýgurðu það. Stampinn braut hann, en brauðið ekki.“