Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Svartbaksungi

Úr Wikiheimild

Kerling ein er Kristín hét var eitt sinn í Flateyjarsókn og gekk þar til altaris með mörgu fólki. Prestur skriftaði fólki upp á gamla móðinn og sem það var búið spurði hann meðhjálparann hvort enginn væri eftir. Meðhjálparinn grennslaðist eftir því, og sagði þá einhver að hún Kristín væri eftir. Lætur hann þá leita hennar og fannst hún inn í Miðbæ og þar í eldhúsi. Presti leiddist, en beið þó Kristínar; en er hún kemur fram fyrir hann spyr hann hana hvar hún hafi verið og hvað að gera. Kerling svarar: „Ég var, prestur minn góður, upp í Miðbæ að drekka soð, það er svo gott af blessuðum svartbaksungunum.“ „Þei, þei,“ mælti prestur, „hættu Kristín, krjúptu niður og játaðu syndir þínar og lestu skriftarganginn.“ „Ég skal gera það prestur góður,“ mælti Kristín og kraup niður og segir: „Minn kæri verðugi faðir, ég get ekki að því gert að mér þykir svartbaksunginn svo góður og soðið svo sætt af honum.“